Meðferð og úrræði fyrir gigtveika hunda

Hvað er slitgigt?

Eftir því sem hundar eldast greinast fleiri og fleiri með gigt. Þetta er þó ekki eingöngu bundið við eldri hunda því sumir ungir hundar greinast líka með gigt. Ástæða gigtar hjá ungum hundum er oftar en ekki vegna meðfæddra vandamála.

Gigt ( arthritis) er bólga í liðum en liðagigt er slitgigt (osteoarthritis) sem er krónisk bólga í liðum sem myndast hefur vegna hnignunar eða hrönunar á brjóski í liðflötum.

Liðamót samanstanda af tveimur beinendum sem eru tengd saman með liðpoka og liðböndum.

Í eðilegum lið klæðir brjósk sem er fast gúmmíkennt efni beinendana.

Brjóskið myndar sléttan flöt sem liðurinn hreyfist nánast núningslaust á og eins er það einskonar stuðpúði eða höggdeyfir sem flytur þunga eða kraft yfir á sjálf beinin. Umhverfis liðinn er svo liðpokinn sem á stóran þátt ásamt liðböndunum í að styrkja liðinn og framleiða liðvökva sem hefur það hlutverk að smyrja og næra liðinn.

Við áverka á brjósk eða þegar hnignun/hrörnun á brjóski á sér stað myndast verkur og bólga og erfiðara og sársaukafullt verður að hreyfa liðinn. Ástæða verksins er margþætt en kemur ekki frá sjálfu brjóskinu heldur frá liðpokanum, að stórum hluta beininu undir brjóskinu og frá vöðvum, sinum og liðböndum umhverfis liðinn. Eftir því sem slitgigtin versnar fer undirliggjandi bein einnig að hnigna og það fara að myndast á því beingaddar. Við áreitið á brjóskið myndast í líkamanum bólguviðbrögð og hann fer að mynda cytokines ( prótein) og ensím sem ennfremur valda skemmdum á brjóskinu. Við endastigs slitbreytingar er brjóskið horfið og beinendarnir nuddast saman sem aftur veldur enn frekari skemmdum og meiri verkjum.

Hvað veldur slitgigt?

Hjá flestum er ástæða slitgigtar margþætt.

Slitgigt getur komið vegna álags eða slits á annars eðlilegan lið og gerist þá þegar hundurinn eldist. Slitgigt getur líka komið vegna:

Óstöðgs liðs t.d vegna liðbandaáverka.

Skaða eða óeðlilegs þroska á brjóskmyndun í lið ( t.d OCD) eða vegna þess að liðurinn myndaðist ekki “rétt”. (meðfætt, t.d mjaðma og olnbogalos).

Skaða vegna áverka t.d brots í lið eða endurtekinnar tognunnar.

Yfirþyngdar sem aftur myndar álag á brjóskið og getur þannig ýtt undir slitgigt.

Einkenni

Einkenni slitgigtar eru fjölmörg og fara þau eftir því hvaða liður/liðir eru undirlagðir, aldri hundsins og hversu slæm slitgigtin er. Slitgigt gerir liðina stífa og auma og hundurinn verður þannig stirður og skrefin styttast, göngulagið breytist og hundurinn verður sýnilega haltur. Hundurinn reynir að hlífa þeim fæti sem er slæmur með því að setja minni þunga á hann og eftir einhvern tíma rýrna vöðvarnir á þeim fæti sem hundurinn er að hlífa. Hundur með mjaðmalos á báðum mjöðmum er því oftar en ekki með mjög rýr læri en aftur á móti með mjög stóra vöðva á brjósti og öxlum þar sem hann færir þungan yfir á frampartinn.

Hundar með slitgigt eru oft stirðir eftir hvíld en verða einkenna minni eftir því sem þeir hreyfa sig meira og verða heitari.

Margir eiga í erfiðleikum með að hoppa upp í eða niður úr bílnum, margir eiga í erfiðleikum með að ganga upp eða niður tröppur, þeir liggja meira og eru almennt þreyttari. Sumir verða pirraðir og geta farið í vörn við snertingu á aumu svæði og sumir sleikja eða naga aum svæði. Margir hundar sækja í að liggja þar sem er heitt og jafnvel mjúkt. Eirðarleysi einkennir marga hunda sem eru orðnir slæmir af gigt. Þeir sem sváfu heilu næturna á einum stað fara gjarnan að færa sig oft á milli staða. Eitt eiga þó flestir þessara hunda sameiginlegt og það er að þeir kvarta ekki!

Greining

Greining á slitgigt byggist á lýsingu og sögu á einkennum ásamt skoðun. Oft eru þessir hundar með töluverða skerðingu á liðleika og oft eru liðir bólgnir og meiri um sig en eðlilegt er.

Röntgen er gjarnan notað við greiningu á slitgigt og í einstaka tilfellum þarf að taka sýni úr liðvökva eða blóðprufu.

Erlendis eru annarskonar myndgreiningar einnig notaðar við greiningu á slitgigt.

Meðferðarúrræði

Það er í fæstum tilfellum sem hægt er að “lækna” slitgigt. Í einstaka tilfelli er hægt að fjarlægja vandamálið með aðgerð en í all flestum tilfellum þarf að nálgast þennan sjúkdóm frá öðru sjónarmiði. Markmiðið við meðhöndlun á slitgigt er að halda liðnum/ liðunum í notkun með eins litlum verkjum og hægt er og varðveita liðinn í sem bestri mynd eins lengi og mögulegt er. Hvert tilfelli er nánast einstakt. Ekki er hægt að dæma t.d út frá röntgenmynd hversu miklir verkir fylgja ákveðnum breytingum á myndinni. Það þarf að einstaklingsmiða meðferðina þannig að sem bestur árangur náist hverju sinni. Sumir hundar þola ekki ákveðin lyf og þá þarf að reyna að nálgast vandamálið frá öðru sjónarmiði. Oftast eru meðferðarúrræðin margþætt og fela í sér einhverja notkun á lyfjum, fæðubótarefnum, endurhæfingu, lasermeðferð svo eitthvað sé nefnt. Stór þáttur í meðferðinni er að aðlaga sig að vandamálinu í gegnum daglega rútínu.

Lyf

Bólgueyðandi lyf (NASIDs) virka hratt með því að minnka bæði bólguna og verkina. Þegar verkirnir minnka líður hundinum betur og á auðveldara með að hreyfa sig sem er aftur mjög mikilvægt til að viðhalda almennt góðu heilbrigði, t.d hjarta og æðakerfi og meltingu. Einnig verður vöðvarýrnun minni sem aftur ýtir undir að aflögun liðamóta verður minni og með því móti verða verkirnir minni.

Þessi lyf eru þó ekki án aukaverkana og þau þarf að nota með mikilli aðgát. Þau geta t.d valdið uppköstum og niðurgangi og á aldrei að nota án samráðs við dýralækni. Eins er mjög mikilvægt að nota einungis lyf ætluð hundum en ekki fólki. Til eru bólgueyðandi lyf með stutta virkni og með forðavirkni.

Nýrnahettuhormón (corticosteroids) myndast í ákveðnu magni í nýrnahettum hunda. Þessi hormón eru stundum notuð við meðhöndlun á gigt en þá í mun meira magni en líkaminn myndar. Þessi lyf hafa einngi töluverðar aukaverkanir og því ekki notuð nema að vel ígrunduðu máli og aldrei án samráðs við dýralækni.

Mikilvægt er að hafa í huga að þessi lyf minnka bólgu og verki en eiga engan þátt í að lækna slitgigt.

Brjóskverndandi lyf

Brjóskverndandi lyf (chondroprotectants) af ýmsum toga hafa verið mjög vinsæl undanfarin ár. Rannsóknir hafa þó ekki verið á einu máli um hversu mikil áhrif þau hafi í raun og veru á slitgigt. Sumar rannsóknir hafa sýnt fram á að þessi lyf hafi jafnvel engin áhrif á meðan aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að þau geti jafnvel átt þátt í að enduruppbyggja brjósk og eða minnkað bólgur!

Þó svo rannsóknir séu misvísandi er ekkert því til fyrirstöðu að prófa þessi brjóskverndandi lyf. Sumir hundar virðast sýna umtalsverðan “bata” og verða einkennaminni við inntöku þessara lyfja á meðan aðrir hundar sýna enga eða mjög lítinn “bata”.

Dæmi um brjóskverndandi lyf sem eiga að minnka brjósk skemmdir, hafa uppbyggjandi áhrif og minnka bólgur eru: Hyaluronic sýra, polysulphated glycosaminoglycnas og pentosan polysulphate. Fæðubótarefni eins og glucosmaine og chondroitin sulphate sem eru byggingarefni brjósks eru mjög vinsæl í dag. Hægt er að fá fóður hjá dýralæknum þar sem búið er bæta þessum efnum í fóðrið og eins er hægt að kaupa fjölmargar tegundir af fæðubótarefnum í gæludýravöruverslunum. Þau eru þó misgóð eða misvönduð eins og gengur og gerist þegar um fæðubótarefni er að ræða almennt, hvort sem er fyrir hunda eða menn.

Omega 3 olía er talina hafa jákvæð áhrif á hunda sem þjást af slitgigt. Gerðar hafa verið fjölmargar rannsóknir og hafa flestar komist að þeirri niðurstöðu að omega 3 olía minnki bólgur og hundarnir virðast verkjaminni og eigi auðveldara með að hreyfa sig.

Til eru nokkrar fóðurtegundir sem innihalda töluvert magn af brjóskverndandi lyfjum. Sem dæmi má nefna Hills prescription j/d og Royal Canine mobility support.

Aðgerðir

Eins og áður sagði er í fæstum tilfellum hægt að lækna slitgigt þó er hægt í einstaka tilfelli að grípa inn í með aðgerð t.d ef um slitgigt er að ræða vegna slitinna krossbanda eða lausrar hnéskeljar. Í sumum tilfellum er hægt að fjarlægja mjaðmakúlu eins og t.d við drepi í mjaðmakúlu ( Calve legg perthes) og sumsstaðar erlendis er hægt að fara í liðskipti aðgerð á mjöðm.

Þyngdarstjórnun

Þyngdarstjórnun er mjög mikilvægur þáttur þegar kemur að meðferð á slitgigt. Hvert aukakíló sem hundarnir bera veldur meira álagi á liðunum sem aftur ýtir undir bólgumyndun og ennfrekari slitgigt með tilheyrandi verkjum. Eins eru þessir hundar líklegri til að slíta liðbönd, fara úr lið ofl. Hundar sem eru farnir að eldast og eru of þungir eiga töluverða hættu á að mynda slitgigt í t.d hnjá og mjaðmaliðum. Þetta á sérstaklega við stærri hundategundir. Hundar með slitgigt þurfa í raun að vera í eða jafnvel aðeins undir kjörþyngd. Þetta þýðir ekki að það eigi að svelta þessa hunda heldur er mjög mikilvægt að þeir séu á mjög góðu fóðri, helst fóðri þar sem tekið er mið af slitgigt.

Dagleg rútina

Smávægilegar breytingar heima fyrir geta breytt umtalsverðu fyrir hundinn og aukið þannig lífsgæðin. Gott er að hundurinn hafi t.d meira en einn stað til að liggja á því það getur verið gott að breyta til eftir þvi hvernig og hvar verkirnir eru. Það er t.d gott að hafa eitt bælið ekstra mjúkt og hlýtt. Ef slitgigt er í hálsliðum og baki getur verið gott að hækka mat og drykkjardalla. Rampar geta komið sér vel, t.d til að komast upp í og niður úr háum bílum. Þetta á sérstaklega við þegar um stóra hunda er að ræða.

Ekki er gott að hafa hunda með slitgigt í búrum, þeir þurfa að geta hreyft sig að vild og of löng kyrrstaða hvort sem er í búri, bíl eða annarsstaðar veldur því að liðirnir stirðna og verða aumir. Göngutúrar þurfa að vera einstaklingsmiðaðir og styttri og fleiri göngutúrar henta flestum hundum með slitgigt betur heldur en fáir og langir. Allt sem heitir að leika með bolta og leikur við aðra hunda þar sem hreyfingarnar eru snöggar og hraðar valda miklu álagi á liðamót og ætti að forðast í alla staði.

Endurhæfing

Æfingar eru mjög mikilvægar og sennileg það mikilvægasta þegar kemur að því að meðhöndla slitgigt. Reglulegar (daglegar) æfingar eins og göngutúrar í taumi og sund þegar hægt er að koma því við er af hinu góða. Allar æfingar þurfa að miðast við að viðhalda styrk og liðleika liðanna eins og mögulegt er en jafnframt mega þær ekki valda auknu álagi og ýta undir að liðirnir slitni enn frekar og valda því meiri skaða en gagni.

Æfingaprógram þarf að sníða að þörfum hvers og eins og er þá t.d tekið mið af hvaða lið/liði verið er að eiga við, hversu slæm slitgigtin er, þyngd, aldri og ástandi hundsins almennt. Æfingaprógröm samanstanda yfirleitt af jafnvægisæfingum, styrktaræfingum og liðleikaæfingum.

Laser

Lasermeðferð er m.a mjög góð verkjameðhöndlun. Við meðferð með Companiona Class IV laser eru frumur á meðferðarsvæði örvaðar með ljóseindum (photons) á ákveðinni bylgjulengd. Við þessa örvun eykst m.a blóðflæðið á meðferðarsvæðinu sem hefur margvísleg áhrif á frumurnar sem aftur minnkar bólgur, minnkar verki, flýtir gróanda ofl. Þessi meðferð er algjörlega sársaukalaus og flestir hundar slaka mjög vel á á meðan meðferð stendur. Eins og svo oft áður er meðferð og meðferðar fjöldi einsktaklingsbundin og oft notuð í bland við önnur meðferðarúrræði.

Nudd

Hundar sem eru þjáðir af slitgigt eru oftar en ekki búnir að færa til líkamsþyngdina t.d frá afturparti yfir á frampart. Þetta á sérstaklega við hunda sem eru með mjaðmalos á báðum mjöðum. Eða frá öðrum afturfætinum yfir á hinn osfrv. Þessir hundar eru oft með mikilar vöðvabólgur og eru verulega aumir og stífir vegna aukins álags. Það er mjög gott að fara með þessa hunda í nudd til að losa um bólgur og minnka verki. Vegna þess að þessir hundar eru yfirleitt töluvert verkjaðir og undir miklu álagi þarf að vinna mjög rólega með þá og vinna traust þeirra hægt og rólega.

Kírópraktík

Kírópratík miðar einna helst að því að leiðrétta hryggvandamál og koma þannig á eðlilegu taugaflæði. Þessi meðferð getur verið sérlega hjálpleg þegar um slitgigt í hrygg er að ræða og hjálpar líkamanum að koma á eðlilegri hreyfigetu og stöðvað óelilegan slithraða.

Þessi upptalning á einkennum og meðferðarúrræðum er á engan hátt tæmandi. Einkenni slitgigtar og meðferð við henni er svo misjöfn því nánast engin tvö tilfelli eru nákvæmlega eins. Öll meðferð miðast þó alltaf við að auka lífsgæði hundsins og gera daglegt líf eins auðvelt og kostur er.

Heimilidir:

Fox, Steven M., Mills, Darryl. 2010. Mulitmodal Management of Canine Osteoarthritis. Manson Publishing.

Riegel, Ronald J DVM. 2008. Laser Therapy in the Companion Animal Practice. Lite Cure LLC.

Thomson, Reginald G. 1988. Special Veterinary Pathology. V.C Decker Inc, Toronto, Philadelphia/ The Veterinary Press. London.